Saga Steypustöðvarinnar ehf
& Loftorku ehf

Steypustöðin hóf starfsemi árið 1947 og var frumkvöðull í Evrópu í því að framleiða steypu úr steypubifreiðum og varðaði þannig brautina í mannvirkjagerð á Íslandi á mesta uppgangstíma Íslandssögunnar eftir lok síðari heimstyrjaldar.

Núverandi félag er byggt á grunni þess félags sem stofnað var 1947.

Meginstarfsemi Steypustöðvarinnar er framleiðsla á blautsteypu, þar sem mikil áhersla er lögð á gæðamál og öll íblöndunar- og fylliefni sem notuð eru í steinsteypu eru samkvæmt kröfum byggingareglugerðar. Stöðugt er unnið að vöruþróun og innleiðingu nýjunga í framleiðslu og í raun má segja að blautsteypa sem framleidd er í dag sé hátæknivara sem verður til með tölvustýrðum framleiðsluferlum sem byrja í steypustöð og enda með dælingu úr steypubíl á byggingastað. Félagið rekur eigin rannsóknarstofu þar sem stöðugt er fylgst með gæðum allra ferla framleiðslunnar.

Auk framleiðslu á blautsteypu eru framleiddar hellur og allt sem því tilheyrir í fullkominni helluverksmiðju og félagið rekur múrverslun á Malarhöfða þar sem m.a. eru seld hágæða múrefni sem félagið flytur inn. Steypustöðin býður einnig uppá þjónustu flotbíla sem þjónusta nýbyggingar og endurbætur um allt land með ílagnarefni í gólf af margvíslegum toga.

Steypustöðin er með höfuðstöðvar á Malarhöfða. Þar eru skrifstofur og stærsta steypustöð félagsins. Steypustöðin er einnig með steypustöðvar á Selfossi, Vík í Mýrdal, Helguvík og er dótturfélagið Loftorka í Borgarnesi einnig með stöð. Þjónustugeta félagsins spannar yfir stórt landssvæði og félagið getur þjónað stórum hluta landsmanna í steypu, hellum, múrvörum, einingum og öllu sem viðkemur burðarvirkjum í mannvirkjagerð.

Um áramótin 2016/2017 keypti Steypustöðin ehf Loftorku Borgarnesi ehf., en saman eiga þessi fyrirtæki langa sögu sem nær yfir samtals 125 ár í framleiðslu og þjónustu á vörum fyrir byggingamarkaðinn á Íslandi. Fram til þessa höfðu þessi félög, hvort á sínu sviði, verið í fararbroddi í innleiðingum nýjunga í byggingariðnaði í landinu.

Með kaupum á Loftorku Borganesi útvíkkaði Steypustöðin þjónustunet sitt við sína viðskiptavini umtalsvert í einingum, holplötum, filigranplötum og steinsteyptum rörum. Loftorka Borgarnesi er eins og Steypustöðin rótgróið fyrirtæki, sem stofnað var 1962 og hefur þróast í gegnum árin úr því að vera þjónustuaðili með loftpressu sem nafn þess er dregið af, upp í það að vera ein öflugasta einingaverksmiðja landsins í steyptum einingum og rörum. Starfsemi Loftorku Borgarnesi byggðist fram til 1981 fyrst og fremst á þjónustu við nærsvæðið, framleiðslu á blautsteypu, verktakastarfsemi og helluframleiðslu. Það ár hófst framleiðsla á steyptum húseiningum sem í gegnum árin hefur þróast mikið, framleiðslan byrjaði í 1.100 fermetrum og er í dag með margvíslega framleiðslu á forsteyptum einingum og rörum í rúmlega 12.000 fermetrum.