Gæðastefna

Starfsmenn okkar og stjórnendur hafa helgað sig gæðum allrar okkar framleiðslu. Við leggjum okkur fram við að framleiða vöru sem uppfyllir þínar kröfur. Við erum stolt af því að geta horft til baka á langa og farsæla steypuframleiðslu fyrirtækisins. Frá árinu 1947 höfum við verið að þróa framleiðslu okkar og aðferðir. Á þessum tíma höfum við öðlast mikla reynslu sem er viðskiptavinum okkar til hagsbóta. Í gegnum árin hafa staðlar og kröfur markaðarins stöðugt verið að breytast og stöðugt er unnið að því að mæta þeim kröfum sem gerðar eru. Á rannsóknar- og þrónardeild fyrirtækisins starfa fjórir rannsóknarmenn, tveir jarðfræðingar og einn byggingaverkfræðingur. Starfsmenn rannsóknar- og þróunardeildar sjá til þess að framleiðsla okkar uppfylli kröfur gildandi staðla.

 

Staðlarnir

Nýlega hafa nokkrir evrópskir staðlar verið gerðir að íslenskum stöðlum. Þetta er gert til að gera framleiðsluvörur sambærilegar innan Evrópu. Þetta hefur haft áhrif á framleiðsluaðferðir og framleiðsluna sjálfa. Árið 2003 reistum við nýja verksmiðju í Hafnarfirði til að geta mætt þeim kröfum sem gerðar eru í nýjustu stöðlunum. Staðlarnir ÍST EN 1338 og 1339 skilgreina eiginleika hellna og steina svo dæmi sé tekið. Í þeim eru t.d. gerðar kröfur um styrk, endingu og málsetningu vörunnar. Ferska steypu framleiðum við skv. staðlinum ÍST EN 206-1:2000. Til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru höfum við byggt upp gæðakerfi sem er byggt á ISO reglugerðum. Kerfið nær til hráefna, framleiðslu, verkferla, afhendingu og að sjálfsögðu steypunnar sjálfrar.

Hráefnin

Við vöndum valið á hráefnum til að ná sem mestum gæðum. Áður en við ákveðum að nota einhver hráefni eru nákvæmar prófanir gerðar á rannsóknarstofu okkar. Hágæðasement er grundvöllur okkar framleiðslu. Við erum í stöðugu sambandi við okkar sementsframleiðanda með það að markmiði að bæta og þróa steypuna. Við framleiðslu á hellum og steinum notum við innflutt hágæða fylliefni frá Noregi. Það er einstaklega sterkt og hentar því afar vel í steypuvörur sem eiga að hafa mikið slitþol og þola t.d. áraun nagladekkja. Í framleiðslu hefðbundinnar steypu notum við fylliefni frá bestu fylliefnaframleiðendum á Íslandi.

Rannsóknarstofan

Rannsóknarstofan okkar er í samvinnu við aðrar rannsóknarstofur, stofnanir og verkfræðistofur við að þróa nýjar steyputegundir og til að finna réttu lausnina fyrir okkar viðskiptavini. Á síðustu árum höfum við unnið að endurbótum á rannsóknarstofu okkar í Reykjavík. Nýr og fullkominn búnaður gerir okkur kleift að fylgjast á viðeigandi hátt með framleiðslu okkar. Niðurstöður prófana eru geymdar í gagnagrunnum og því getum við nálgast upplýsingar um niðurstöður með lítilli fyrirhöfn. Rannsóknar- og þróunarhópurinn okkar býður einnig uppá ráðgjöf og gæðastjórnun á verkstað ef þess er óskað.

Á rannsóknarstofu okkar er einnig boðið upp á neðangreindar prófanir:

 • Brotþol borkjarna
 • Þrýstiþol strendinga (4x4x16 cm)
 • Þrýstiþol sívalninga (10×20 cm og 15×30 cm)
 • Beygjutogþol
 • Beygjutogþol hellna
 • Beygjutogþol strendinga (4x4x16 cm)
 • Slitþol
 • Rakainnihald í steinsteypu
 • Rúmþyngd ferskrar steypu
 • Rúmþyngd harðnaðrar steypu
 • Sigmál
 • SCC flæði
 • Loftinnihald ferskrar steypu
 • Sýnataka í sívalninga (10×20 cm)
 • Sýnataka í sívalninga (15×30 cm)
 • Rakainnihald í gólfílögn
 • Veðrunarþol steypu
 • Sáldurferill, þurrsigtað
 • Slamm í fylliefnum
 • Húmus í fylliefnum